Aur app

Almennir skilmálar Aurs

1. Inngangur og gildissvið samningssambands

1.1. Skilmálar þessir gilda um viðskiptasamband á milli viðskiptamanns og Aur og þá þjónustu sem Aur veitir.

1.2. Um samningssamband viðskiptamanns og Aur gilda, auk þessara skilmála, almennir skilmálar vegna viðskipta við Kviku banka hf. (hér eftir „almennir skilmálar Kviku“), sem aðgengilegir eru á vefsvæði bankans, www.kvika.is. Almennir skilmálar Aurs skulu ganga framar almennum skilmálum Kviku banka hf. (hér eftir „Kvika“) ef í milli ber.

1.3. Með því að samþykkja skilmála þessa lýsir notandi því yfir að hann hafi lesið, skilið og samþykkt efni þessara skilmála og almennra skilmála Kviku.

1.4. Skilmálar þessir gilda um þjónustu sem Aur veitir, nánar tiltekið (i) umsókn og notkun viðskiptamanns á Aur appinu, og (ii) lántöku viðskiptamanns í gegnum Aur appið. Það ræðst því af notkun og veittri þjónustu hverju sinni hvaða ákvæði þessa skilmála og almennra skilmála Kviku gilda um viðskiptasamband viðskiptamanns og Aur.

2. Umsókn og notkun appsins

2.1. Notandi ber ábyrgð á því að gefa upp íslenskt símanúmer sem hann er sannarlega skráður fyrir, sem og réttar korta- og bankaupplýsingar á sömu kennitölu.

2.2. Notandi ábyrgist að uppfæra þær upplýsingar sem um hann gilda þannig að þær séu á hverjum tíma réttar og fullnægjandi. Aur áskilur sér rétt til að fresta eða stöðva framkvæmd greiðslu sem og að krefjast frekari upplýsinga af notanda ef Aur telur ástæðu til að ætla að verið sé að framkvæma greiðslu í andstöðu við skilmála þessa, almenna skilmála Kviku eða landslög.

2.3. Aur áskilur sér allan rétt til að hafna umsókn um notkun appsins án þess að tilgreina ástæðu. Með því að samþykkja skilmála þessa heimilar notandi Aur að óska þeirra upplýsinga sem Aur telur nauðsynlegar til að tryggja öryggi þjónustunnar, öryggi notenda og/eða öryggi utanaðkomandi aðila. Upplýsingaöflun getur t.d. falist í fyrirspurnum til notanda eða kröfu um staðfestingar frá honum vegna þeirra upplýsinga sem hann hefur gefið eða aðgerða sem hann hefur framkvæmt.

3. Varðveisla, meðferð og ábyrgð notanda

3.1. Öll notkun Aurs appsins a er á ábyrgð notanda og má hann undir engum kringumstæðum deila upplýsingum um PIN númer eða veita öðrum aðila upplýsingar um númerið. Það er á ábyrgð notanda að greiða réttum notanda og/eða krefja réttan notanda um greiðslu. Þegar notandi borgar öðrum notanda felur það í sér yfirlýsingu notanda og staðfestingu á að notandinn eigi næga heimild á greiðslukorti sínu til að geta framkvæmt greiðsluna. Aur áskilur sér rétt til að takmarka einhliða þær upphæðir sem notandi getur millifært. Ef ágreiningur eða tjón verður vegna þess að greitt er með Aur er það Aur og Kviku banka hf. algerlega óviðkomandi og án ábyrgðar. Notandi getur ekki krafið Aur um skaðabætur af neinu tagi eða endurgreiðslur vegna rangra greiðslna, þess að greiðsla berst ekki eða berst ekki fyrir tiltekinn tíma eða ef greiðsla er ógild eða véfengd.

4. Glataður sími, lokun, afturköllun og uppsögn

4.1. Ef notandi Aurs appsins verður var við óeðlilega notkun eða greiðslur af greiðslukorti sínu sem hann telur sig ekki hafa framkvæmt, týnir símanum sínum eða grunar að óviðkomandi hafi vitneskju um PIN númer að Aur appinu þá er það á ábyrgð notanda að loka tafarlaust fyrir aðgang sinn að appinu á vefsíðu Aurs, www.aur.is. Aur appið áskilja sér rétt til að loka fyrir aðgang notanda ef grunur um misnotkun eða ranga notkun af einhverju tagi kemur upp, að einhliða mati Aurs. Ef engin notkun hefur átt sér stað í 12 mánuði hefur Aur rétt á að loka aðgangi notanda.

5. Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga

5.1. Aur er ábyrgðaraðili við vinnslu gagna, eins og skilgreint er í lögum um persónuvernd og reglugerð Evrópusambandsins GDPR og er vinnsla persónuupplýsinga sanngjörn og gagnsæ.

5.2. Notandi getur haft samband við Aur hvenær sem er til að (i) óska eftir aðgangi að þeim upplýsingum sem Aur á um notanda, (ii) leiðrétta upplýsingar sem Aur á um notanda, (iii) eyða upplýsingum sem Aur á um notanda eða (iv) nýta sér önnur þau réttindi sem kveðið er á um í gildandi persónuverndarlögum.

5.3. Til að stofna aðgang hjá Aur verður notandi að gefa upp kennitölu, nafn, símanúmer, bankaupplýsingar og kortanúmer. Enn fremur verður notandi að gefa upp tölvupóstfang sitt við umsókn um lán og/eða kort.

5.4. Bankaupplýsingar notanda eru geymdar hjá Aur, svo hægt sé að leggja inn á reikning notanda. Aur getur ekki nýtt þessar upplýsingar til að millifæra beint af bankareikningi notanda. Aur fylgir íslenskum lögum um meðferð persónuupplýsinga og ítrasta öryggis er gætt í meðferð þeirra.

5.5. Þegar notandi sækir um lán hjá Aur er upplýsinga um notanda aflað frá utanaðkomandi aðilum til að taka sjálfvirkar ákvarðanir um lánveitingar. Umsækjandi samþykkir viðkomandi upplýsingaöflun áður en þeirra er aflað. Upplýsingarnar eru ekki notaðar í öðrum tilgangi.

5.6. Komi til breytinga á eignarhaldi Aurs hefur það ekki áhrif á réttindi og skyldur notanda og þjónusta Aur mun haldast óbreytt óháð slíkum breytingum nema notanda verði tilkynnt um annað með hæfilegum fyrirvara.

5.7. Nánari upplýsingar um meðferð persónuupplýsinga er að finna hér: www.aur.is/personuupplysingar. Ef notandi hefur einhverjar frekari spurningar um það hvaða upplýsingar Aur safnar og geymir er hægt að hafa samband með því að senda tölvupóst á aur@aur.is.

6. Gjaldtaka og millifærsluheimild

6.1. Aur appið tekur ekki gjald fyrir að millifæra af debetkorti en ef notandi skráir kreditkort er kostnaður skv. verðskrá, sem er aðgengileg á www.aur.is og í Aur appinu, undir „Um Aur“. Notandi Aurs hefur hámarksheimild á dag og innan mánaðar. Breytingar á verðskrá til hækkunar eru tilkynntar með 30 daga fyrirvara en lækkanir geta tekið gildi strax.

7. Ábyrgð

7.1. Verði Aur og/eða Borgun hf. fyrir tjóni vegna brota notanda gegn skilmálum þessum eða hvers kyns ásetnings- eða gáleysisverka notanda í tengslum við notkun á Aur appinu skal notandi bæta Aur og/eða Borgun hf. það tjón samkvæmt almennum reglum um skaðabætur innan eða utan samninga. Undir ákvæði þetta falla einnig hvers kyns kröfur þriðja manns á hendur Aur og/eða Borgun hf. vegna notkunar eða umgengni notanda við Aur appið á grundvelli samnings þessa.

7.2. Hvorki Aur né notandi skulu teljast brotlegir gegn skilmálum þessum eða ábyrgir gagnvart hinum ef orsök er að rekja til atvika sem viðkomandi aðili hefur ekki á valdi sínu (óviðráðanleg atvik). Óviðráðanleg atvik í þessum skilningi eru m.a. en ekki einskorðuð við náttúruhamfarir, styrjaldir eða almennar óeirðir, aðgerðir opinberra aðila sem gera efndir ómögulegar, vinnudeilur o.þ.h. Hafi efndir verið útilokaðar af framangreindum sökum í 6 vikur eða lengur er hvorum aðila um sig heimilt að slíta samningi þessum með tilkynningu til gagnaðila sem gefin skal með 7 daga fyrirvara.

8. Breyting á skilmálum og aðrar tilkynningar

8.1. Notandi hefur aðgang að gildandi skilmálum í Aur appinu undir um Aur og á á vef Aurs, www.aur.is. Aur hefur heimild til að breyta ákvæðum skilmála þessara einhliða. Komi til breytinga á skilmálum sem eru notanda til óhagræðis munu þær verða kynntar notanda með minnst 30 daga fyrirvara með skilaboðum í gegnum appið, SMS tilkynningu til notenda og/eða undir stillingar í Aur appinu og á www.aur.is. Aðrar breytingar, sem eru til hagræðis fyrir notanda, má tilkynna með skemmri fyrirvara. Notandi samþykkir framangreindar aðferðir við upplýsingagjöf til hans. Í tilkynningu um breytta skilmála skal vakin athygli á því í hverju breytingar eru fólgnar og rétt notanda til að segja upp þjónustunni. Litið er svo á að notandi hafi samþykkt breytingar ef viðkomandi notar appið eftir að nýir skilmálar hafa tekið gildi. Aur áskilur sér rétt að hafa samskipti við notendur appsins í gegnum SMS skilaboð og með skilaboðum í gegnum appið. Aur mun eingöngu senda upplýsingar til notenda er varða þjónustu fyrirtækisins en ekki áreiti frá þriðja aðila.

8.2. Öll mál, sem rísa kunna af notkun Aurs appsins skulu, nema á annan veg sé samið, fara eftir íslenskum lögum. Rísi mál vegna brota á skilmálum þessum eða ágreinings um túlkun þeirra má reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

9. Gildistími og lok samnings

9.1. Skilmálar þessir eru gefnir út af Aur og gilda frá 1. april 2022 og þar til nýir skilmálar taka gildi.

9.2. Þjónustusamningur Aur og notanda er ótímabundinnn, en uppsegjanlegur af hálfu hvors aðila með 30 daga fyrirvara, miðað við mánaðarmót, nema mælt sé fyrir um skemmri frest í skilmálum þessum.

9.3. Aur er ávallt heimilt að rifta samningi þessum án fyrirvara séu einhverjar af eftirtöldum ástæðum fyrir hendi:

9.3.1. Starfsemi notanda telst að mati Aur, Borgunar (færsluhirðir) eða alþjóðlegu kortafélaganna sviksamleg á einhvern hátt eða notandi muni með háttsemi sinni skaða orðspor eða merki alþjóðlegu kortafélaganna.

9.3.2. Aur eða Borgun (færsluhirðir) hætta af einhverjum ástæðum að vera aðilar að alþjóðlegu kortafélögunum MasterCard og Visa.

9.3.3. Notandi gerist brotlegur gegn reglum alþjóðlegu kortafélaganna, gildandi lögum, reglugerðum eða skilmálum þessum.

9.3.4. Breyting verður á starfsemi notanda.